top of page

Að hrossaræktarbúinu Stangarlæk 1 í Grímsnesi standa hjónin Ragna Björnsdóttir frá Vík í Mýrdal og Birgir Leó Ólafsson frá Ketilsstöðum í Holtahreppi.

Áhugi Rögnu á dýrum kviknaði strax á barnsaldri. Dvaldi hún löngum stundum í fjárhúsum afa síns, Ragnars, fyrstu ár ævinnar. Áhuginn á hestum og löngunin til þess að komast á hestbak varð til þess að hún fór á hverju vori í reiðskóla hestamannafélagsins Sindra sem haldinn var í Vík. Þar má segja að hún hafi smitast af hinni ólæknandi hestabakteríu og kynnst því einstaka sambandi sem myndast á milli manns og hests. Mikill áhrifavaldur og fyrirmynd í því sambandi var Sigurlaug Gunnarsdóttir frá Suður Fossi í Mýrdal. En Sigurlaug kenndi henni bæði í reiðskóla og á fystu árum í grunnskóla. 

Birgir er fæddur inn í hestamennskuna þar sem á Ketilsstöðum var stunduð hrossarækt í töluverðu mæli. Áhersla var lögð á fjörviljug og gangmikil hross þar sem skeiðið var alltaf haft í öndvegi. Áhugi Birgis á hrossarækt vaknaði því snemma og fyrsta hryssan sem foreldrar hans gáfu honum var IS1979286007 Mósa frá Ketilsstöðum eignaðist sitt fyrsta folald 1984. Mósa frá Ketilsstöðum var undar IS1969187110 Gusti frá Kröggólfsstöðum og Perlu frá Ketilsstöðum sem átti ættir sínar að rekja í IS1960185660 Léttir frá Vík og IS1968286903 Nös frá Læk. Mósa frá Ketilsstöðum eignaðist nokkur afkvæmi og var IS1993286876 Gjöf frá Ketilsstöðum það afkvæmi Mósu sem markaði helst spor í hrossarækt Birgis og Rögnu fram til ársins 2007.

Leiðir þeirra Rögnu og Birgis lágu saman árið 1990. Fljótlega varð ljóst að hross og hrossarækt var sameiginlegt áhugamál þeirra beggja. Fyrstu árin var hestamennska þeirra skorðuð við Selfoss og Ketilsstaði. Það breyttist þegar þau keyptu litla jörð í Grímsnesi árið 2006. Jörðin hlaut heitið Stangarlækur 1. Eftir þau kaup hafa öll hross í þeirra eigu verið kennd við Stangarlæk 1 í Grímsnesi.

Stangarlækur 1 er staðsett við Biskupstungnabraut (35), 30km norðan við Selfoss. Lögbýlið Stangarlækur 1 varð til með kaupum á landi úr Þórisstöðum í Grímsnesi. Stangarlækur 1 telur 75 hektara.

bottom of page